Ábyrgð og aðgerðir – Niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi

Á undanförnum árum hefur vaxandi athygli verið beint að einelti meðal barna hér á landi sem og erlendis. Alvarleiki eineltis hefur verið viðurkenndur en þrátt fyrir það er einelti engu að síður raunverulegt vandamál í íslensku samfélagi.

Sumarið 2010 var Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr vum fjölskydumálefni veittur myndarlegur styrkur úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Sch. Thorsteinssonar til að vinna, í samstarfi við Félagsráðgjafardeild, Lagadeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands, að þverfræðilegri rannsókn á einelti meðal barna í íslensku samfélag. Unnin var sameiginleg skýrsla út frá þremur meistararitgerðum á ofangreindum fagsviðum og birtist hún í þessu riti.

Þess er vænst að niðurstöður rannsóknarinnar geri bæði löggjafanum og stjórnvöldum, betur kleift að samræma þekkingu sína og reynslu á einelti og það geti leitt til bættrar löggjafar og markvissari þjónustu til a tryggja velferð barna í íslensku samfélagi.

Efni þessa rits, sem er 1. hefti nýrrar ritraðar (RÁS), skiptist í tvo hluta. Sá fyrri geymir fræðilegt yfirlit og helstu niðurstöður hinnar þverfræðilegu rannsóknar. Í seinni hlutanum er útdráttur þriggja meistararitgerða sem niðurstöður rannsóknarinnar byggjast á.

Höfundar meistararitgerðanna eru Daníel Reynisson, sem rannsakaði einelti frá sjónarhóli lögfræði, Hjördís Árnadóttir, sem rannsakaði það frá sjónarhóli félagsráðgjafar og Sjöfn Kristjánsdóttir, sem rannsakaði það frá sjónarhóli grunnskólakennara. Meðhöfundar þess efnis er birtist í umræddu riti eru: Hrefna Friðriksdóttir dósent við Lagadeildina, Halldór Guðmundsson, lektor við Félagsráðgjafardeild og Vanda Sigurgeirsdóttir lektor við Íþrótta- tómstunda- og þroskaþjálfadeild Háskóla Íslands, en þau voru jafnframt leiðbeinendur meistaranemanna við samningu ritgerðanna.

Ábyrgð og aðgerðir, bókakápa