Header Paragraph

Styrkir til meistaranema í lögfræði, hjúkrunarfræði og siðfræði við Háskóla Íslands

Image
""

Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni auglýsir styrki til meistaranema í lögfræði, hjúkrunarfræði og siðfræði við Háskóla Íslands, til að vinna að rannsóknarverkefni sem ber yfirskriftina: Staða barna - sjálfræði - innan heilbrigðisþjónustunnar út frá sjónarhorni lögfræði, hjúkrunarfræði og siðfræði.

Rannsóknin er unnin í samvinnu við Lagadeild, Hjúkrunarfræðideild og Sagnfræði- og heimspekideild við Háskóla Íslands. Um er að ræða heildstæða, þverfræðilega rannsókn á lagalegri og siðfræðilegri stöðu barna innan heilbrigðisþjónustunnar hér á landi, með áherslu á sjálfræði barna varðandi þátttöku og ákvarðanatöku í þeirra málum.

Styrkir verða veittir til þriggja meistaranema, sem áhuga hafa á að taka þátt í þessari rannsókn. Styrkfjárhæðin er kr. 250.000 til hvers nema.

Auglýst er eftir:

  • Meistaranema í lögfræði. Verkefnið felst m.a. í því að skrifa meistararitgerð um um stöðu barna - einkum sjálfræði þeirra - innan heilbrigðisþjónustunnar út frá lögfræðilegu sjónarhorni undir umsjón Hrefnu Friðriksdóttur dósents við Lagadeild HÍ.
  • Meistaranema í hjúkrunarfræði. Verkefnið felst m.a. í því að skrifa meistararitgerð um stöðu barna - einkum sjálfræði þeirra - innan heilbrigðisþjónustunnar út frá hjúkrunarfræðilegu sjónarhorni undir umsjón Erlu Kolbrúnar Svavarsdóttur prófessors við Hjúkrunardeild HÍ.
  • Meistaranema í siðfræði. Verkefnið felst m.a. í því að skrifa meistararitgerð um stöðu barna - einkum sjálfræði þeirra - innan heilbrigðisþjónustunnar út frá siðfræðilegu sjónarhorni undir umsjón Salvarar Nordal forstöðumanns Siðfræðistofnunar HÍ.

Meistaranemar, sem hljóta styrk, þurfa einnig að taka þátt í samstarfi sín á milli með reglubundnum hætti frá haustinu 2013 varðandi uppbyggingu og samhæfingu rannsóknarinnar. Meistaranemarnir munu ásamt verkefnisstjórn vinna lokaskýrslu um heildarniðurstöður rannsóknarinnar sem kynntar verða opinberlega haustið 2014.

Umsóknarfrestur er til 19. september 2013.

Í umsókninni þurfa eftirtalin atriði að koma fram:

  1. Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og netfang.
  2. Við hvaða deild viðkomandi stundar meistaranám og upplýsingar um námsferil og námsárangur.
  3. Helstu ástæður þess að umsækjandi sækir um þennan styrk.

Umsóknum skal skila, sem viðhengi, á netfang forstöðumanns Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, Þórhildar Líndal, thorhill@hi.is, sem veitir frekari upplýsingar ef óskað er.

Áætlað er að ákvörðun um hverjir hljóta styrkina liggi fyrir í lok september 2013.