Header Paragraph

Málþing - Sameiginleg forsjá - heimild dómara

Image
Lögberg

Það var árið 2007, sem frændur okkar Danir, tóku upp í lög um forsjá foreldra (forældreansvarsloven) - heimild til að dæma sameiginlega forsjá foreldra með börnum sínum þrátt fyrir að annað foreldrið væri því andvígt, en í dönskum rétti er sameiginleg forsjá meginreglan við skilnað eða sambúðarslit. Önnur Norðurlönd hafa og farið þá leið að taka upp heimild sem þessa í sína löggjöf, en reynsla þeirra mun vera misjöfn.

Ákvæði um heimild dómara til að ákveða sameiginlega forsjá þrátt fyrir að annað foreldrið sé því andvígt er ekki að finna í íslenskum barnalögum. Nefnd sem skipuð var í lok árs 2008 af þáverandi dóms – og kirkjumálaráðherra til að vinna drög að frumvarpi til breytinga á   þeim lögum lagði hins vegar til að slíkt ákvæði yrði lögfest. Á liðnu vori mælti innanríkisráðherra á  Alþingi fyrir frumvarpi til breytinga á barnalögum, en þá hafði umrætt ákvæði, sem gerð hafði verið tillaga, verið fellt burt. Í máli ráðherra kom m.a. fram að skiptar skoðanir væru um hvort dómari ætti að hafa heimild til að dæma sameiginlega forsjá gegn vilja annars foreldris. Jafnframt nefndi hann að brátt væri að vænta niðurstöðu Dana af reynslu þeirra af framangreindri heimild og sagði að sú  reynsla yrði væntanlega innlegg í umræðu hér á landi um þetta álitaefni.

Nú háttar þannig til að hinni dönsku rannsókn er nýlokið og niðurstöður liggja fyrir. Við hjá RÁS og RBF voru svo heppin að Mai Heide Ottosen önnur tveggja sem stýrðu rannsókninni - þekktist boð þessara tveggja stofnana að koma til landsins og kynna fyrir okkur Íslendingum niðurstöður þessarar splunkunýju dönsku rannsóknar. Það hefur í gegnum tíðina reynst okkur Íslendingum vel að líta til stórfrænda okkar á Norðurlöndum þegar unnið er að lagasmíð hér á landi og kynna okkur reynslu þeirra - ekki hvað síst í fjölskyldurétti -  enda samfélagsgerðin ákaflega lík. 

Þegar leitast hefur verið við að svara spurningunni um hver hafi verið reynsla Dana  í þessum efnum er eðlilegt að spyrja í framhaldinu hver verða næstu skrefin hér á landi, en frumvarpið til breytinga á barnalögum sem ráðherra lagði fram á vorþingi varð ekki útrætt. Er þess að vænta að frumvarpið verði lagt fram að nýju og þá óbreytt eða verða gerðar á þeim einhverjar breytingar  eftir að niðurstöður hinnar dönsku rannsóknar liggja fyrir ? Þessu verður ef til vill svarað hér í dag.

Deilur um forsjá eru alltaf viðkvæmar og erfiðar – ekki síst börnum- og það sem skiptir mestu máli – alltaf – er að  þarfir og hagsmunir barnanna séu hafðir að leiðarljósi við ákvarðanatöku í ágreiningsmálum sem þessum. Samkvæmt meginstefi Barnasáttmálans skal það sem barninu er fyrir bestu ávallt sett í öndvegi í málum sem þau varða. Höfum það hugfast.

 

 
Fyrirlestur Hrefnu Friðriksdóttur (PDF)

Niðurstöður matsrannsóknar á ákvæðum danskra barnalaga um heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá (PDF)

Grein eftir Unni B. Vilhjálmsdóttur, Fréttatíminn 2.-4. desember 2011(PDF)