Einelti meðal barna

Á undanförnum árum hefur vaxandi athygli verið beint að einelti meðal barna hér á landi sem og erlendis. Alvarleiki eineltis hefur verið viðurkenndur en þrátt fyrir það er einelti engu að síður raunverulegt vandamál í íslensku samfélagi.

Sumarið 2010 var Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni veittur myndarlegur styrkur úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar til að vinna, í samstarfi við Félagsráðgjafardeild, Lagadeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands, að rannsókn á einelti meðal barna í íslensku samfélagi.

 

Markmið

Markmið rannsóknarinnar var að greina m.a. stöðu þekkingar á tíðni eineltis, birtingarmyndum þess, menntun fagstétta og aðferðum til að sporna við einelti. Nauðsynlegt þótti að spyrja hver væri skilgreiningin á einelti í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, innan sem utan skólakerfisins og í félagslegri þjónustu sveitarfélaga. Hvaða úrræði væru til staðar þegar einelti kæmi upp og væru viðbrögðin samræmd af hálfu þeirra sem athafnaskyldan hvílir á?

Talið var brýnt að skoða þennan vanda heildstætt út frá mismunandi sjónarhornum fræðanna, þ.e. frá sjónarhorni lögfræði, félagsráðgjafar og menntavísinda. Lagt var upp með það markmið að niðurstöður rannsóknarinnar gætu gert löggjafanum og stjórnvöldum betur kleift að samræma þekkingu sína og reynslu um einelti og það gæti aftur leitt til bættrar löggjafar og markvissari þjónustu til að tryggja velferð barna í íslensku samfélagi.

Í verkefnisstjórn sátu: Þórhildur Líndal, forstöðumaður Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr, formaður, Halldór S. Guðmundsson, lektor við Félagsráðgjafardeild HÍ, Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild HÍ, Hrefna Friðriksdóttir, dósent við Lagadeild HÍ auk dr. Brynju Bragadóttur, ráðgefandi sérfræðings.

 

Auglýst eftir meistaranemum 

Verkefnisstjórnin ákvað að auglýsa á vef Háskóla Íslands eftir þremur meistaranemum til að vinna að þessari rannsókn.

Í auglýsingunni kom m.a. fram að rannsaka ætti einelti út frá þremur sjónarhornum á vegum þriggja fræðigreina innan Háskóla Íslands. Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni ásamt Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar myndu veita styrk til verkefnisins, að fjárhæð 300.000 kr. til hvers meistaranema. 

Auglýst var eftir meistaranemum við Lagadeild, Félagsráðgjafardeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands til að skrifa meistararitgerð um einelti út frá sjónarhorni hverrar greinar. Leiðbeinendur nemanna yrðu kennarar við fyrrnefndar deildir HÍ. Auk þess að skrifa meistararitgerð yrði verkefni meistaranemanna að taka þátt í samstarfi frá haustinu 2010 varðandi uppbyggingu og samhæfingu rannsóknarinnar. Nemarnir ásamt ráðgefandi sérfræðingi og verkefnisstjórn skyldu loks vinna lokaskýrslu um heildarniðurstöður rannsóknarinnar sem kynntar yrðu haustið 2011.

 

Í september 2010 lá fyrir hverjir hefðu hlotið styrkina og myndu vinna að framangreindu rannsóknarverkefni.

Höfundur meistararitgerðar í lögfræði:

  • Einelti meðal barna út frá sjónarhorni lögfræði er Daníel Reynisson  en leiðbeinandi hans var Hrefna Friðriksdóttir dósent. 
  • „Ég varð bara að læra það af reynslunni“, Mat kennara á fræðslu og þjálfun í eineltismálum í kennaranámi var heiti meistararitgerðar Sjafnar Kristjánsdóttur leiðbeinandi hennar var Vanda Sigurgeirsdóttir lektor.
  • Hjördís Árnadóttir er höfundur ritgerðar sem ber heitið: Einelti og eineltisáætlanir, aðkoma félagsþjónustu og barnaverndar, en leiðbeinandi hennar var Halldór S. Guðmundsson lektor. 

 

 

 

Þegar ofangreindar meistararitgerðir lágu fyrir var hafist handa við að útbúa heildarniðurstöður þessarar þverfræðilegu rannsóknar á einelti á Íslandi. Að því verki kom öll áðurnefnd verkefnisstjórn.
Afraksturinn er birtur í 1. hefti  nýrrar ritraðar RÁS, og ber heitið:

Ábyrgð og aðgerðir. Ritstjóri þessa heftis var Þórhildur Líndal.

 

Málþing

Til að fagna útkomu ritsins  var boðað til opins málþings í Öskju og þar var gerð grein fyrir helstu niðurstöðum hinnar þverfræðilegu rannsóknar. 

Í framhaldinu var óskað eftir fundi með mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, og henni þar afhent 172 eintök af ofangreindu riti, með þeirri ósk að hver og grunnskóli á landinu fengi eitt eintak til  upplýsandi umræðu í skólasamfélaginu.