Ármann Snævarr

 

Ármann Snævarr fæddist á Nesi í Norðfirði þann 18. september 1919 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Valdemar V. Snævarr, skólastjóri f. 22. ágúst 1883, d. 18. júlí 1961, og Stefanía Erlendsdóttir, húsmóðir f. 6. nóvember 1883, d. 11. desember 1970.

Systkini Ármanns voru Gunnsteinn f. 16. mars 1907, d. 12. júní 1919. Árni Þorvaldur, verkfræðingur og ráðuneytissjóri f. 27. apríl 1909, d. 15. ágúst 1979. Laufey Guðrún, húsmóðir f. 31. október 1911, d. 9. nóvember 2002. Stefán Erlendur, prófastur f. 22. mars 1914, d. 26. desember 1992. Gísli Sigurður f. 21. júlí 1917, d. 21. janúar 1931. 

Ármann kvæntist þann 11. nóvember 1950 Valborgu Sigurðardóttur uppeldisfræðingi og fyrrv. skólastjóra Fósturskóla Íslands, f. 1. febrúar 1922, d. 25. nóvember 2012. Foreldrar hennar voru Sigurður Þorólfsson skólastjóri Lýðháskólans á Hvítárbakka og seinni kona hans Ásdís Margrét Þorgrímsdóttir húsmóðir.

Börn Ármanns og Valborgar: 1. Sigríður Ásdís, f. 23. júní 1952 sendiherra gift Kjartani Gunnarssyni, f. 4. október 1951 lögfræðingi, sonur þeirra er Kjartan Gunnsteinn, f. 5. júlí 2007. 2. Stefán Valdemar, f. 25. október 1953 prófessor í Lillehammer í Noregi. 3. Sigurður Ármann, f. 6. apríl 1955 hagfræðingur, kvæntur Eydísi Kristínu Sveinbjarnardóttur, f. 24. júní 1961 aðstoðarframkvæmdastjóra hjúkrunar á Landsspítala. Börn Sigurðar eru Jóhannes, f. 2. nóvember 1982 og Ásdís Nordal, f. 21. ágúst 1984.

Börn Eydísar eru Sveinbjörn Thorarensen, f. 26. nóvember 1984 og Sigurlaug Thorarensen, f. 18. desember 1990. 4. Valborg Þóra, f. 10. ágúst 1960, hæstaréttarlögmaður, gift Eiríki Thorsteinsson, f. 17. september 1959, kvikmyndagerðarmanni. Sonur Valborgar er Gunnsteinn Ármann Snævarr, f. 18. janúar 1981. Dóttir Eiríks er Oddný Eva Thorsteinsson, f. 16. maí 1988. 5. Árni Þorvaldur, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í Brussel, f. 4. mars 1962. Börn hans eru Ásgerður, f. 1. ágúst 1988 og Þorgrímur Kári, f.12. október 1993.

Ármann varð stúdent frá MA 1938 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1944. Hann stundaði framhaldsnám lögum við háskólana í Uppsölum, Kaupmannahöfn og Ósló árin 1945-1948 og sérnám og rannsóknir við Harvard Law School 1954-1955. Hann var skipaður prófessor í lögum við Háskóla Íslands árið 1948 og gegndi því starfi til ársins 1972. Árið 1960 var Ármann kjörinn rektor Háskóla Íslands og gegndi því starfi til 1969. Ármann var skipaður hæstaréttardómari árið 1972, en lét af því embætti árið 1984.

Eftir Ármann liggur mikill fjöldi bóka og annarra fræðirita um lögfræði. Vorið 2008 þegar hann var á 89. aldursári sendi hann frá sér mikið fræðirit um hjúskapar- og sambúðarrétt. Kennsluferill hans við lagadeild Háskóla Íslands spannaði hálfa öld.

Ármann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Uppsalaháskóla árið 1970, Ohio Northern University 1973, Helsingforsháskóla 1980, Oslóarháskóla 1986 og Kaupmannarhafnarháskóla 1986 og við Háskóla Íslands árið 1993. Honum hlotnuðust ýmsar fleiri viðurkenningar fyrir störf sín, bæði erlendis og hér heima.

Árið 1993 hlaut Ármann norrænu lögfræðingaverðlaunin fyrir framlag sitt til norrænnar réttarþróunar. Í tengslum við níræðisafmæli Ármanns setti Háskóli Íslands á fót við lagadeild sína Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni.