Header Paragraph

Málstofa - "Skóli fyrir alla" - fá allir að njóta sín?

Image
""

Málstofa
Miðvikudaginn 6. apríl
kl. 12:15-13:15
Í Lögbergi stofu 101

Nokkur umræða hefur átt sér stað að undanförnum um kosti og galla þeirrar stefnu sem nefnd hefur verið skóli án aðgreiningar – skóli fyrir alla. 

Í grein sem Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri í Reykjavík skrifaði í Fréttablaðið í síðustu viku kemur m.a. fram að þessi  skóla- og menntastefnan eigi sér um tveggja áratuga sögu og hún eigi rætur í baráttu foreldra  fatlaðra barna fyrir rétti barna sinna til að ganga í almennan skóla.

Í grein sem Elin Ýr Arnardóttir nemi í  þroskaþjálfunarfræðum skrifaði í Morgunblaðið fyrir nokkrum dögum lýsir hún skólagöngu sinni, sem fatlað barn, bæði í almennum skóla og sérskóla. Það er hennar mat að skóli án aðgreiningar sé afskaplega falleg hugmynd - útópísk en falleg þar sem öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir, en litið sé fram hjá þeirri staðreynd að öll dýrin í skóginum vilji ekki vera vinir.  Hún kemst að þeirri niðurstöðu að nemendum beri að eiga val um hvora leiðina þeir velja með tilliti til þess hvar þeir þrífist best.

Meginatriðið í stefnunni um skóla án aðgreiningar er að skóli sé með þjónustu fyrir alla nemendur sína, bæði fatlaða og ófatlaða. Gert er ráð fyrir því að hver skóli sé fær um að sinna öllum nemendum, svo sem kostur er, og taka á sérkennsluþörfum og erfiðleikum sem upp kunna að koma í skólanum með viðeigandi stuðningi. 

Á þessari málstofu ætlum við að fjalla um þessa opinberu stefnu í skólamálum á Íslandi út frá ýmsum hliðum. Það er þó rétt að taka fram að það eru ýmsar fleiri hliðar á þessu máli en hér eru í forgrunni  enda er þessari málstofu hvorki ætlað að vera upphaf né endir þessarar umræðu um skóla án aðgreiningar – skóla fyrir alla.