Háskóli Íslands

Heiðursrit - Ármann Snævarr 1919-2010

Heiðursrit Ármanns Snævarrs

Hinn 15. febrúar 2011 þegar eitt ár var liðið frá andláti dr. juris Ármanns Snævarr kom út á vegum Rannsókna-stofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni við Háskóla Íslands og Bókaútgáfunnar Codex ofangreint rit, sem ætlað er að heiðra minningu hins látna.

Í ritinu er að finna 22 fræðigreinar eftir 25 höfunda, sem allar fjalla á einn eða annan hátt um málefni fjölskyldunnar.  Af þessum 25 höfundum eru 16 lögfræðingar, þar af fjórir norrænir, og níu aðrir sérfræðingar á sviði félagsvísinda, heilbrigðisvísinda, hugvísinda og menntavísinda við Háskóla Íslands.  Af þessum 22 greinum eru 10 þeirra ritrýndar að að ósk höfunda.

Auk fræðigreinanna hefur ritið að geyma formála Þórhildar Líndal forstöðumanns Rannsóknastofnunarinnar, æviágrip Ármanns heitins og minningarorð dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar, kveðjur frá innanríkisráðherra, Hæstarétti Íslands og Háskóla Íslands að viðbættri höfundaskrá, ritaskrá Ármanns og Tabula in Honorem.  Ritið er 505 bls. að stærð og er til sölu í Bóksölu stúdenta, bóksölu Úlfljóts og bókaverslunum Eymundsson.

Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr, sem sett var á laggirnar haustið 2009, var Ármanni mikið gleðiefni enda hugsjón hans til fjölda ára.  Þessari stofnun er ætlað að vera vettvangur lögfræðirannsókna- og þróunarstarfs í málefnum fjölskyldna og barna í þverfaglegu samstarfi við önnur fræðasvið og rannsóknastofnanir sem fjalla um fjölskyldumálefni. 

Umfjöllunarefni þessa heiðursrits eru málefni fjölskyldunnar á þverfræðilegum grunni og þannig birtist okkur hugsjón Ármanns heitins raunverulega í þessu ritverki. 

Eftirtaldir höfundar skrifa í ritið:

Ármann Snævarr: Upphaf borgaralegra hjónavígslna á Íslandi (áður óbirt grein)

Ástríður Stefándóttir, dósent í hagnýtri siðfræði við Menntavísindasvið HÍ: Foreldrahlutverk og fjölskyldutengsl- siðferðilegar vangaveltur. Um gjafaegg, gjafasæði og staðgöngumæðrun

Margareta Brattström, dósent við lagadeild Uppsalaháskóla: Familjerättsliga hänsyn och förmögenhetsrättsliga principer-dold samäganderätt i svensk rätt

Svend Danielsen, dr.juris., fyrrv. landsdómari og prófessor við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla: Hvem bestemmer, hvis den gamle ikke kan? Er fremtidsfuldmagter en mulighed?

Dóra S. Bjarnason, prófessor við uppeldis- og menntunarfræðideild HÍ: Reynsla foreldra af því að eiga fatlað barn á Íslandi 1974-2007

Dögg Pálsdóttir, hrl.: Umgengni og umgengnistálmanir

Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir, doktorsnemi í hjúkrunarfræðum, aðstoðarmaður og staðgengill framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala og Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við hjúkrunarfræðideild HÍ og forstöðumaður fræðasviðs í fjölskylduhjúkrun á Landspítala og HÍ: Þróun meðferðar: Markviss stuðningur við fjölskyldur á bráðageðdeildum

Guðný Björk Eydal, prófessor við félagsráðgjafardeild HÍ: Íslenskur sifjaréttur og fjölskyldustefna frá fyrirvinnuskipan til jafnréttis

Guðrún Kristinsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið HÍ: „Þurfti alla okkar athygli til að byrja með“ Þörf fósturforeldra fyrir stuðning

Heiða Björg Pálmadóttir lögfræðingur: Vernd barna gegn líkamlegu ofbeldi

Hjördís Björk Hákonardóttir, fyrrv. hæstaréttardómari: Kemur réttlæti lögfræðingum við?

Hrefna Friðriksdóttir, dósent við lagadeild HÍ: Ein hjúskaparlög fyrir alla

Urpo Kangas, prófessor við lagadeild Helsinkiháskóla: Réttarreglur um sambúð í Finnlandi

Magnús Thoroddsen, hrl. og fyrrv. hæstaréttardómari: Réttarstaða kvenna í hjúskap í Sádi- Arabíu

Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við lagadeild HÍ: Sifjaspell

Ragnhildur Sophusdóttir, lögfræðingur: Málsmeðferðarreglur í sifjamálum hjá sýslumanni

Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild HÍ og Þuríður B. Sigurjónsdóttir, lögfræðingur: Uppgjör við fortíðina! Starf vistheimilanefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007

Sigrún Júlíusdóttir, prófessor við félagsráðgjafardeild HÍ og Sigurveig H. Sigurðardóttir dósent við félagsráðgjafardeild HÍ: Fjölskyldusamskipti-ungt fólk og aldraðir

Lucy Smith fyrrv. lagaprófessor og rektor Óslóarháskóla: Fra FNs komité for barns rettigheter

Steinunn Guðbjartsdóttir, hrl.: Óvígð sambúð

Trausti Fannar Valsson, lektor við lagadeild HÍ: Rétturinn til nafns samkvæmt lögum um mannanöfn

Vilhjálmur Árnason, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild HÍ: Æxlunarfrelsi, erfðatækni og barnavernd

Verð kr. 7.000

Smelltu hér til að panta eintak

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is