Háskóli Íslands

Starfsemi ársins 2014

Almennt yfirlit og stjórn

Í stjórn stofnunarinnar árið 2014 sátu: Hrefna Friðriksdóttir frá Lagadeild, formaður, Erla Kolbrún Svavarsdóttir frá Heilbrigðisvísindasviði, Gunnar E. Finnbogason frá Menntavísindasviði, Sigrún Júlíusdóttir frá Félagsráðgjafardeild og Vilhjálmur Árnason frá Hugvísindasviði. Forstöðumaður í 50% starfi var Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Rannsóknir

Í byrjun árs hófst vinna við rannsóknina: Staða barna innan heilbrigðiskerfisins – með áherslu á sjálfræði þeirra til þátttöku og ákvarðana í eigin málum, en að henni stendur Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr, í samstarfi við Lagadeild, Heilbrigðisvísindasvið og Hugvísindasvið. Rannsóknasjóður HÍ hefur veitt styrk til þessarar rannsóknar.  I. hluti rannsóknarinnar er fólgin í samningu ritgerða og gerð rannsókna þriggja meistaranema undir handleiðslu kennara á hlutaðeigandi sviði, en í þessum ritgerðum er horft til viðfangsefnis rannsóknarinnar út frá þremur mismunandi sjónarhornum, lögfræði, siðfræði og hjúkrunarfræði.  Stefnt var á að þessum hluta verkefnisins yrði lokið á vormisseri en það dróst, m.a. vegna veikinda eins þátttakanda. Þegar þessum I. hluta lýkur verður hafist handa við samningu II. hluta verkefnisins. Sú vinna er fólgin í því að samþætta niðurstöður meistararitgerðanna þriggja í eina sameiginlega skýrslu með þverfræðilegri niðurstöðu, sem birt verður opinberlega á málstofu um leið og skýrslan liggur fyrir.

Útgáfa

Fræðsluritið Kynferðisofbeldi gegn börnum. Málsmeðferð innan réttarkerfisins og réttarvernd barna, kom út á árinu. Að útgáfunni standa Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS) og Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum, f.h. innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis. Höfundar ritsins sem er ritrýnt eru Hrefna Friðriksdóttir og Anni G. Haugen. Ritið er einkum ætlað fagstéttum sem starfa innan réttarkerfisins en allir sem láta sig varða kynferðisofbeldi gegn börnum ættu sömuleiðis að hafa gagn af þvi.

Fjallað er m.a. um ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, meginreglur Lanzarote-samningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðisofbeldi og Leiðbeiningar ráðherranefndar Evrópuráðsins um barnvænlega réttarvörslu. Höfundar greina þau leiðarljós sem endurspeglast í íslenskum lögum og framangreindum alþjóðasamningum og fylgja ber til að tryggja fyrirmyndarvinnubrögð við meðferð kynferðisbrotamála gegn börnum. Í II. hluta er fjallað ítarlega um málsmeðferðina, samspil allra þeirra ólíku aðila er koma að kynferðisbrotamálum, frá upphafi til loka og rýnt í fyrrnefnd leiðarljós.

Námskeið

RÁS skipulagði fjögur námskeið um kynferðisofbeldi gegn börnum fyrir starfsmenn réttarkerfisins; dómara, ákæruvald, lögreglu, réttargæslumenn og starfsmenn barnaverndar. Námskeiðin voru haldin á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík. Þátttakendur voru samtals á annað hundrað.

Kynningarstarfsemi og málstofur

Úbúið var sérstakt kynningarblað um starfsemi RÁS, sem m.a. er að finna á vefsíðu RÁS, www.ras.hi.is. Þar segir frá þjónustu, sem RÁS veitir opinberum stofnunum, félögum og fyrirtækjum, á sviði fjölskyldumálefna, en samkvæmt beiðni tekur stofnunin að sér gerð lagafrumvarpa, álitsgerða, skýrslna, reglna/reglugerða og bæklinga um málefni fjölskyldunnar á breiðum grundvelli. Þjónustuverkefnin eru unnin af sérfræðingum á sviði lögfræði og í samstarfi við sérfræðinga á öðrum fræðasviðum - ef eftir því er leitað.

Hafinn var undirbúningur að málstofu um staðgöngumæðrun í samstarfi við Rannsóknastofnun um barna- og fjölskylduvernd (RBF) og Siðfræðistofnun HÍ.
Undirbúningur hófst að nýju samstarfsverkefni RÁS og Fjölmiðlanefndar um rannsókn á breyttu lagaumhverfi fjölmiðla og annarra samfélagsmiðla með vernd barna fyrir skaðlegu efni í öndvegi.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is