Háskóli Íslands

Starfsemi ársins 2013

Almennt yfirlit og stjórn

Í stjórn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (skammst. RÁS) árið 2013 sátu: Hrefna Friðriksdóttir, frá Lagadeild, formaður, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, frá Heilbrigðisvísindasviði, Gunnar E. Finnbogason, frá Menntavísindasviði, Sigrún Júlíusdóttir, frá Félagsráðgjafardeild, og Vilhjálmur Árnason frá Hugvísindasviði. Forstöðumaður í 50% starfi er Þórhildur Líndal lögfræðingur.
 

Rannsóknir:

Á árinu hélt áfram undirbúningur rannsóknarverkefnisins: Staða barna innan heilbrigðiskerfisins – með áherslu á sjálfræði þeirra til þátttöku og ákvarðana í eigin málum, en að því standa Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr, í samstarfi við Lagadeild, Heilbrigðisvísindasvið og Hugvísindasvið. Styrkur að fjárhæð kr. 900.000 fékkst til þessa verkefnis úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Í framhaldinu var sett á laggirnar verkefnisstjórn sem í eiga sæti, Erla K. Svavarsdóttir, Hrefna Friðriksdóttir, Salvör Nordal og Þórhildur Líndal. Ákveðið var að auglýsa á vefsíðum Háskóla Íslands eftir MA nemum til að taka þátt í verkefninu og hlutu þessir umsækjendur styrk að fjárhæð kr. 250.000 hver: Aðalheiður D. Matthíasdóttir, MA nemi í siðfræði, Alma Rún R. Thorarensen, MA nemi í lögfræði og Thelma Björk Árnadóttir, MS nemi í hjúkrunarfræði. Nemarnir munu skrifa meistararitgerð um efnið undir handleiðslu kennara á hlutaðeigandi sviði, en auk þess þurfa þeir, sem styrkþegar, að taka þátt í samstarfi sín á milli og vinna að samhæfingu - samþættingu - niðurstaðna meistararitgerðanna þriggja í eina sameiginlega þverfræðilega lokaskýrslu, en stefnt er að gefa hana út í ritröð RÁS fyrir árslok 2014.

Í aprílmánuði var undirritaður samstarfssamningur milli RÁS og Vitundarvakningar um kynferðisbrot gegn börnum, fyrir hönd innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis. Samkvæmt honum tekur RÁS að sér að útbúa fræðsluefni um meðferð kynferðisbrota gegn börnum í réttarvörslukerfinu og heldur námskeið,sem byggja á því efni. Verkefnisstjórn, á grundvelli áðurnefnds samnings, sem í eiga sæti Kristín Jónsdóttir, Kolbrún Benediktsdóttir og Þórhildur Líndal, ákvað að efna til fundar um miðjan september með helstu sérfræðingum í meðferð kynferðisbrota gegn börnum og heyra skoðanir þeirra á fyrirhuguðu verkefni. Í kjölfar fundarins, í nóvember, var ákveðið að ganga til samninga við tvo sérfræðinga innan Háskóla Íslands, þær Hrefnu Friðriksdóttur, dósents í lögfræði og Anni G, Haugen lektors í félagsráðgjöf, um ritun og hönnun fræðsluefnisins og skyldi efnið liggja fyrir fullbúið í byrjun marsmánaðar 2014.

 

Kynningarstarfsemi og málstofa:

Heimasíða RÁS, www.ras.hi.is, var opnuð formlega í byrjun árs og af því tilefni var boðað til opinnar málstofu í Lögbergi, sem bar yfirskriftina: Fjölskyldan – hin þverfræðilega sýn. Þar fluttu stutt erindi: Þórhildur Líndal, Sigrún Júlíusdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdótir og Salvör Nordal. Þá er einnig hægt að finna  RÁS á „Facebook“ og þar birtast fréttir, aðallega af starfsemi stofnunarinnar, eftir því sem tilefni gefast.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is