Háskóli Íslands

Starfsemi ársins 2011

Almennt yfirlit og stjórn

Stjórn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni árið 2011: Hrefna Friðriksdóttir, frá Lagadeild, formaður, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, frá Heilbrigðisvísindasviði, Guðrún Kristinsdóttir, frá Menntavísindasviði, Sigrún Júlíusdóttir, frá Félagsráðgjafardeild og Vilhjálmur Árnason,frá Hugvísindasviði.  Forstöðumaður í 50% starfi er Þórhildur Líndal lögfræðingur og fv. umboðsmaður barna. 

Rannsóknir  

Um mitt ár 2010 fékk Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr í samvinnu við Félagsráðgjafardeild og Menntavísindasvið, 2,2 milljónir króna styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Sch. Thorsteinssonar til að rannsaka einelti meðal barna. Þrír meistaranemar á sviði lögfræði, félagsráðgjafar og menntavísinda fengu - eftir auglýsingu - úthlutað styrkjum af ofangreindu fé til að vinna að þessu verkefni, sem fólst í því að skrifa meistararitgerðir undir handleiðslu umsjónarkennara hlutaðeigandi deildar og í framhaldinu vinna að sameiginlegri þverfræðilegri skýrslu um helstu niðurstöður. Verkefnisstjórn skipuðu: Hrefna Friðriksdóttir, dósent við Lagadeild, Halldór S. Guðmundsson, lektor við Félagsráðgjafardeild og Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor á Menntavísindasviði, en þau voru jafnframt leiðbeinendur með samningu meistararitgerðanna, Brynja Bragadóttir, dr. í vinnu- og heilsusálfræði starfaði með stjórninni en formaður var Þórhildur Líndal. Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í ritinu Ábyrgð og aðgerðir, sem gefið var út af Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni. Ritstjóri Þórhildur Líndal. Öllum grunnskólum landsins var gefið ritið til fróðleiks.

Kynningarstarfsemi

 Heiðursrit tileinkað minningu dr. Ármanns Snævarr, kom út þegar ár var liðið frá andláti hans 15. febr. 2011. Í heiðursritinu er að finna 22 fræðigreinar eftir 25 höfunda, sem allar fjalla á einn eða annan hátt um fjölskyldumálefni með hina þverfræðilegu sýn að leiðarljósi. Meðal höfunda eru fjórir norrænir fræðimenn. Margar greinar í ritinu eru ritrýndar að ósk höfunda. Auk fræðigreinanna er, í ritinu, að finna ýmislegt annað efni. Ritstjóri Þórhildur Líndal.

Ákveðið var að hefja útgáfu ritraðar um fjölskyldumálefni á breiðum grundvelli á vegum RÁS. Fyrsta tölublaðið leit dagsins ljós í desember og hefur að geyma lokaskýrslu þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi. Höfundar efnis eru sex að tölu, þrír höfundar meistararitgerða og leiðbeinendur þeirra, sem eru jafnframt meðhöfundar að þvi efni er birtist í ritinu. Ritstjóri þessa tölublaðs var Þórhildur Líndal. Efnt var til opins málþings í Öskju 7. des. þar sem höfundar, þ.e. Daníel Reynisson, lögfræðingur, Hjördís Árnadóttir, félagsráðgjafi og Sjöfn Kristjánsdóttir, uppeldis og menntunarfræðingur, kynntu niðurstöður og gerðu grein fyrir tillögum til úrbóta.

Boðað var til opinnar málstofu 6. apríl 2011, sem bar yfirskriftina: Skóli fyrir alla – eru allir að njóta sín? Nokkur umræða hafði orðið í samfélaginu um kosti og galla þeirrar stefnu sem nefnd hefur verið skóli án aðgreiningar - skóli fyrir alla. Frummælendur voru: Brynhildur Flóvenz, dósent við Lagadeild HÍ, sem fjallaði um rétt barna til menntunar á Íslandi. Anna Kristín Sigurðardóttir, lektor í skólaþróun við Menntavísindasvið HÍ varpaði fram spurningunni: Er íslenski skólinn án aðgreiningar?  Þriðji frummælandinn var Haraldur Finnsson fv. skólastjóri. Hann nefndi erindi sitt: Að stuðla að alhliða þroska.

Hinn 14. október var haldið opið málþing í samstarfi við RBF um heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá þrátt fyrir andstöðu annars foreldris.  Af því tilefni var Mai Heide Ottosen sérfræðingi í skilnaðarrannsóknum við Dansk socialforsknings institut (SFI) boðið hingað til lands. Á málþinginu greindi hún frá niðurstöðum matsrannsóknar á reynslu Dana af þessu fyrirkomulagi. Auk hennar voru Hrefna Friðriksdóttir og Sigrún Júlíusdóttir með stutt erindi. Innanríkisráðherra ávarpaði þingið. Lára Björnsdóttir, var málþingsstjóri.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is