Háskóli Íslands

Starfsemi ársins 2010

Almennt yfirlit og stjórn

Stjórn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni var þannig skipuð árið 2010: Hrefna Friðriksdóttir, frá Lagadeild, formaður, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, frá Heilbrigðisvísindasviði, Guðrún Kristinsdóttir, frá Menntavísindasviði, Sigrún Júlíusdóttir, frá Félagsráðgjafardeild og Vilhjálmur Árnason,frá Hugvísindasviði. Forstöðumaður í 50% starfi er Þórhildur Líndal lögfræðingur. Árið 2010 var fyrsta heila starfsár stofnunarinnar. en hún hóf formlega starfsemi sína 1. nóvember 2009. 

Rannsóknir

Um mitt ár 2010 fékk Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr í samvinnu við Félagsráðgjafardeild og Menntavísindasvið styrk að fjárhæð kr. 2.2 milljónir úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Sch. Thorsteinssonar til að rannsaka einelti meðal barna. Þrír meistaranemar á sviði lögfræði, félagsráðgjafar og menntavísinda hafa fengið úthlutað styrkjum af ofangreindu fé til að vinna að þessu verkefni, sem m.a. felst í því að skrifa meistararitgerðir undir handleiðslu umsjónarkennara hlutaðeigandi deildar og í framhaldinu vinna að sameiginlegri skýrslu um helstu niðurstöður, sem birtar verða opinberlega haustið 2011. Sérstök verkefnsstjórn stýrir rannsóknarvinnunni. Í henni eiga sæti Hrefna Friðriksdóttir, dósent í Lagadeild, Halldór S. Guðmundsson, lektor í Félagsráðgjafardeild og Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor á Menntavísindasviði, en þau eru öll jafnframt leiðbeinendur með samningu meistararitgerðanna, Brynja Bragadóttir, dr. í vinnu- og heilsusálfræði starfar með stjórninni en formaður hennar er Þórhildur Líndal.

Á árinu 2010 gerði Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr samning við þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra um samningu frumvarps til breytinga á lögum um staðfesta samvist o.fl.(ein hjúskaparlög). Verkefninu lauk í mars s.á. Annar samningur var gerður af hálfu Rannsóknastofnunarinnar við sama ráðuneyti um gerð skýrslu um ættleiðingar á Íslandi. Í lok desember 2010 var viðamikilli skýrslu um málefnið skilað til ráðuneytisins, sem stefnir á að gefa hana út, á prenti, á árinu 2011.

Kynningarstarfsemi

Ármann Snævarr lést hinn 15. febrúar 2010 og til að heiðra minningu hans ákvað stjórn Rannsóknastofnunarinnar að gefa út, í samstarfi við Bókaútgáfuna Codex fræðirit, sem fjallar á breiðum grundvelli um fjölskyldumálefni – á þverfræðilegan hátt. Ritnefnd skipuðu: Hrefna Friðriksdóttir, Valborg Snævarr, hrl., og Þórhildur Líndal sem jafnframt var ritstjóri. 

Á þriðja tug fræðimanna, lögfræðingar, m.a. úr hópi kennara við lagadeildina, sem og annarra sérfræðinga innan HÍ, auk fjögurra norrænna fræðimanna, skrifa greinar í ritið og stefnt er að útkomu þess þegar ár er liðið frá dánardægri Ármanns heitins, hinn 15. febrúar 2011. Um helmingur höfunda hefur óskað eftir að greinar þeirra verði ritrýndar. Auk fræðigreinanna verður að finna í ritinu ýmislegt annað fróðlegt efni. Ritið ber titilinn: Heiðursrit – Ármann Snævarr – 1919-2010.

Í tilefni af umræðu um svokallað „biskupsmál“ ákvað Rannsóknastofnunin að efna til málstofu um Trúnaðarskyldu-tilkynningarskyldu. Erindi fluttu, Hrefna Friðriksdóttir, Heimir Örn Herbertsson, hrl. og Gunnar Matthíasson, sjúkrahúsprestur og formaður fagráðs Þjóðkirkjunnar í kynferðisbrotamálum. Málstofan var haldin í samvinnu við Lagastofnun HÍ. 

Rannsóknastofnunin boðaði einnig til Samræðu um fjölskyldumálefni, en markmiðið var að finna samhljóm milli fulltrúa unga fjölskyldufólksins og fræðimanna innan HÍ, svo að rannsóknir leiði til raunverulegra úrbóta fyrir íslenskt samfélag í þágu fjölskyldunnar. Hugleiðingar fluttu: Guðný Eydal, Jón Torfi Jónasson, Róbert R. Spanó, Sigurður Guðmundsson og Sólveig Anna Bóasdóttir. Háskólanemar frá ýmsum fagsviðum ræddu saman og svöruðu spurningum, sem framangreindir deildar- og sviðsforsetar, vörpuðu fram í lok hugleiðinga sinna. Niðurstöður þessarar Samræðu hafa m.a. verið birtar á heimasíðu Orators, félags laganema og á student.is.

Annað

Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr var við stofnun tryggt rekstrarfé af HÍ til þriggja ára auk þess sem lagadeild samþykkti að leggja fram fasta fjárhæð til sama tíma. Þessi fjárveiting dugar þó rétt fyrir launum forstöðumanns í hálfu starfi. Til að geta gegnt fjölþættu hlutverki sínu er stofnuninni því lífsnauðsynlegt að afla styrkja og taka að sér ýmis konar þjónustuverkefni, s.s. fyrir opinberar stofnanir. 

Lokið var við skráningu bókagjafar Ármanns Snævarr til Rannsóknastofnunarinar og henni fundinn staður í bókasafni Lagadeildar í Lögbergi. Meðal bókanna eru ýmis grundvallarrit fjölskylduréttarins. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is