Háskóli Íslands

Starfsemi ársins 2009

Rannsóknastofnunin ber heiti dr. juris Ármanns Snævarr sem var prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands í hartnær aldarfjórðung, auk þess að gegna starfirektors Háskóla Íslands í níu ár á sama tímabili. 

Ármann var afkastamikill fræðimaður og hafði óvenjuframsækna sýn á mikilvægi þess að skapa þverfræðilegan vettvang fyrir það sem hann kallaði fjölskyldufræði. Á níræðisafmæli hans síðastliðið haust varð draumur hans að veruleika þegar þessi þverfræðilega rannsóknastofnun var sett á laggirnar við Lagadeild Háskóla Íslands, sbr. nánar reglur háskólaráðs nr. 570/2009. Ármann lést hinn 15. febrúar 2010.

Í  fyrstu stjórn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni eiga sæti: Hrefna Friðriksdóttir, lektor, Lagadeild, Félagsvísindasviði, formaður, Guðrún Kristinsdóttir, prófessor, Menntavísindasviði, varaformaður, Sigrún Júlíusdóttir, prófessor, Félagsráðgjafardeild, Félagsvísindasviði, og Vilhjálmur Árnason, prófessor, Hugvísindasviði. Forstöðumaður stofnunarinnar er Þórhildur Líndal lögfræðingur og um er að ræða 50% starf.

Á þessu fyrsta starfsári verður áherslan lögð á kynningu á hlutverki stofnunarinnar jafnt innan sem utan háskólasamfélagsins og í því sambandi m.a. útbúin sérstök heimasíða auk annars kynningarefnis í prentuðu formi. Mikilvægt verður að koma á reglubundnu samstarfi við ýmsa aðila innan Háskóla Íslands, aðra háskóla hér á landi og erlendis, sem og ráðuneyti, stofnanir, fyrirtæki og frjáls félagasamtök.

Þá er stefnt að það að hrinda af stað rannsóknum á sviði fjölskylduréttarins með þverfræðilegu ívafi og hefur þegar verið sótt um fjárstyrk vegna tveggja hugmynda í þessum efnum. Fyrirhuguð er ráðstefna um fjölskylduna á haustdögum og í bígerð er að gefa út fræðirit tileinkað Ármanni Snævarr. Þegar hefur verið leitað til rannsóknastofnunarinnar um ýmis þjónustuverkefni, s.s. samningu lagafrumvarpa, og fleiri eru í vændum. Þá má vænta þess að haldnar verði málstofur um það sem verður „efst á baugi“ í þjóðfélaginu á árinu 2010 og varðar fjölskylduna á breiðum grundvelli.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is