Háskóli Íslands

Starfsemi ársins 2012

Almennt yfirlit og stjórn

Ný stjórn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (skammst.RÁS) 2012-2015, var skipuð í lok ársins. Í henni sitja: Hrefna Friðriksdóttir, frá Lagadeild, formaður, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, frá Heilbrigðisvísindasviði, Gunnar E. Finnbogason frá Menntavísindasviði, Sigrún Júlíusdóttir, frá Félagsráðgjafardeild og Vilhjálmur Árnason frá Hugvísindasviði. Úr stjórninni gekk Guðrún Kristinsdóttur sem var fulltrúi Menntavísindasviðs í stjórninni 2009-2012. Forstöðumaður í 50% starfi er Þórhildur Líndal lögfræðingur, fv. umboðsmaður barna. 

Rannsóknir  

 Á árinu hófst undirbúningur að nýju rannsóknarverkefni sem ber vinnuheitið Sjálfræði barna innan heilbrigðisþjónustunnar en RÁS, í samstarfi við Lagadeild, Heilbrigðisvísindasvið og Hugvísindasvið hefur í hyggju að framkvæma þverfræðilega rannsókn á stöðu barna, sem sjúklinga innan heilbrigðisþjónustunnar hér á landi, með áherslu á sjálfræði barna varðandi þátttöku og ákvarðanatöku í þeirra eigin málum. Ætlunin er að skoða rannsóknarefnið út frá lögfræðilegu sjónarhorni, sjónarhorni heilbrigðisþjónustu og siðfræðilegu sjónarhorni. Umsókn um styrk var send  til Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands, en niðurstaða hafði ekki borist fyrir áramótin.

Þá tók RÁS þátt í samstarfi við innanríkisráðuneytið, Lagadeild og Evrópuráðið, um undirbúning og skipulag ráðstefnu um kynferðislegt ofbeldi. Fjöldi erlendra og innlendra sérfræðinga fluttu erindi, en markmið ráðstefnunnar var að leiða saman sjónarmið fræðasamfélagsins, refsivörslukerfisins og frjálsra félagasamtaka, sem fjalla um málflokkinn. Hrefna Friðriksdóttir, dósent við Lagadeild HÍ og formaður stjórnar RÁS flutti m.a. erindi í einni málstofu ráðstefnunnar, sem bar heitið:Samspil barnaverndarkerfisins og refsivörslukerfisins.

Í lok ársins boðaði RÁS ásamt innanríkisráðuneytinu og Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd til ráðstefnu sem bar yfirskriftina: Hvað er til ráða - hvað er framundan? Breytingar á barnalögum, undirbúningur og framkvæmd. Aðalfyrirlesarar komu frá Danmörku og Noregi en leitað var eftir styrk til Letterstedtska sjóðsins vegna komu hinna erlendu gesta. Sá styrkur fékkst. Til viðbótar styrkti innanríkisráðuneytið ráðstefnuhaldið á ýmsa vegu.  Auk hinna norrænu fyrirlesara tók fjöldi annarra fyrirlesara þátt í þessari ráðstefnu, m.a. Hrefna Friðriksdóttir frá RÁS, aðalhöfundur frumvarpsins til breytinga á barnalögunum, sem var umræðuefni þessarar ráðstefnu. Jafnframt flutti dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor og stjórnarmaður í RÁS, erindi á ráðstefnunni auk sjö annarra fræðimanna.

Kynningarstarfsemi

Vinna við gerð heimasíðu RÁS lauk á árinu og verður hún opnuð formlega í byrjun næsta árs, en ætlunin er að halda málstofu jafnhliða opnuninni til kynningar. Slóð heimasíðunnar er ras.hi.is en auk þess er RÁS komin á „Facebook“ til að svara kalli tímans.

Annað Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr var við stofnun haustið 2009 tryggt rekstrarfé úr þróunarsjóði rektors HÍ til þriggja ára eða til haustsins 2012. Auk þess, samþykkti Lagadeild að leggja fram, árlega, fasta fjárhæð til sama tíma. Í ljósi þess að í nóv. 2012 yrði óvissa um rekstrarfé til RÁS sendu deildarforseti Lagadeildar og stjórnarformaður RÁS ásamt forstöðumanni RÁS erindi til rektors, dags. 8. febr. 2012. Með erindinu var þess óskað að rektor beitti sér fyrir því að háskólinn legði RÁS til árlegt rekstrarfé næstu fimm árin eða til 2017. Þannig mætti skjóta styrkari stoðum undir áframhaldandi rekstur þessarar þverfræðilegu stofnunar HÍ í fjölskyldumálum. Í framhaldi af bréfinu áttu ofangreind síðan fund með rektor og forseta Félagsvísindasviðs. Á þeim fundi var m.a. bent á að RÁS væri þverfræðileg vísindastofnun og í stjórn hennar ættu sæti fulltrúar frá Lagadeild, Félagsráðgjafardeild, Heilbrigðisvísindasviði og Hugvísindasviði, sem líta mæti á sem nokkra sérstöðu meðal rannsóknastofnana HÍ. Ekki síst með hliðsjón af því að stefna HÍ væri að leggja höfuðáherslu á þverfræðilegar rannsóknir. Niðurstaða þessa máls varð sú að Lagadeild tekur að sér að greiða laun forstöðumanns í hálfu starfi næstu þrjú árin, sbr, sérstakan samstarfssamning RÁS og Lagadeildarinnar.

Eftir sem áður er það stofnuninni lífsnauðsynlegt, til að geta gegnt fjölþættu hlutverki sínu, að afla styrkja og taka að sér ýmis konar þjónustuverkefni, s.s. fyrir opinberar stofnanir. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is