Háskóli Íslands

Fræðslurit fyrir réttarkerfið um meðferð kynferðisbrota gegn börnum

Fræðsluritið "Kynferðisofbeldi gegn börnum. Málsmeðferð innan réttarkerfisins og réttarvernd barna" er nýkomið út. Höfundar þess eru Hrefna Friðriksdóttir og Anni G. Haugen. Að útgáfunni standa Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS) og Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum, f.h. innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis. 

Í I. hluta ritsins er m.a.  fjallað um ákvæði Barnasáttmálans, meginreglur Lanzarote-samningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðisofbeldi og Leiðbeiningar ráðherranefndar Evrópuráðsins um barnvænlega réttarvörslu. Höfundar greina þau leiðarljós sem endurspeglast í íslenskum lögum og framangreindum alþjóðasamingum og fylgja ber til að tryggja fyrirmyndarvinnubrögð við meðferð kynferðisbrotamála gegn börnum. Í II. hluta ritsins er fjallað ítarlega um málsmeðferðina, samspil  allra þeirra ólíku aðila er koma að kynferðisbrotamálum, frá upphafi máls til loka og rýnt í fyrrnefnd leiðarljós. 

Ritið er ritrýnt og einkum ætlað fagstéttum, sem starfa innan réttarkerfisins, en allir sem láta sig kynferðisofbeldi gegn börnum varða ættu sömuleiðis að hafa gagn af lestri þess. Hægt er að kaupa ritið m.a. í Bóksölu stúdenta eða panta eintak hér.

 

Verð kr. 2.000

 

Smelltu hér til að panta eintak

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is