Háskóli Íslands

Málþing

Málþing um niðurstöður eineltisrannsóknar

7. desember 2011

Það var sumarið 2010, sem RÁS í samstarfi við Félagsráðgjafardeild, Lagadeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands fékk styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Sch. Thorsteinssonar til að rannsaka einelti meðal barna. Í framhaldinu var auglýst eftir meistaranemum á þremur fræðasviðum, þ.e.  sviði lögfræði, félagsráðgjafar og menntavísinda til að vinna að þessu rannsóknarverkefni.

Markmiðið með því að nálgast viðfangsefnið frá ólíkum sjónarhornum var að fá sem heildstæðasta mynd af þekkingu samfélagsins á einelti þannig að mögulegt væri að greina hvar þörf væri að afla frekari þekkingar og um leið að kanna hvort þörf væri fyrir markvissari úrræði, þ.m.t. lagaleg úrræði, vegna þessa alvarlega vanda sem einelti  óneitanlega er.

Auk þess að skrifa meistararitgerðir á sínu fræðasviði  var ætlast til þess að meistaranemarnir hefðu samvinnu sín á milli við  uppbyggingu og samhæfingu þessa  þverfræðilega rannsóknaverkefnis með þá sýn að leiðarljósi að útbúa ásamt ráðgefandi sérfræðingi, dr. Brynju Bragadóttur og verkefnisstjórn, en formaður hennar var sú sem hér stendur, sérstaka lokaskýrslu með heildarniðurstöðum rannsóknarinnar.

Þessi lokaskýrsla birtist nú í ritinu sem ber heitið: Ábyrgð og aðgerðir, en það er  jafnframt 1. tölubl. nýrrar ritraðar RÁS.

Ritið hefur að geyma útdrætti úr meistararitgerðunum þremur sem eru, eins og fram er komið, undirstöður rannsóknarinnar:

Höfundar þeirra eru Daníel Reynissonar, lögfræðingur og Hrefna Friðriksdóttir dósent við Lagadeild HÍ, en hún hafði jafnframt umsjón með ritun meistararitgerðar hans: Einelti meðal barna frá sjónarhorni lögfræði

Hjördís Árnadóttir félagsráðgjafi og Halldór S. Guðmundsson lektor við Félagsráðgjafardeild HÍ, eru  höfundar útdráttar um einelti meðal barna frá sjónarhorni félagsráðgjafar en Halldór var  ennfremur leiðbeinandi Hjördísar við ritun meistararitgerðar.

Sjöfn Kristjánsdóttir og  Vanda Sigurgeirsdóttir lektor við íþrótta- tómstunda- og þroskaþjálfadeild  HÍ eru höfundar að útdrætti sem birtist í ritinu um einelti meðal barna út frá menntun grunnskólakennara. Vanda hafði að auki umsjón með meistararitgerð Sjafnar.  

Þá er að finna í ritinu sérstakan kafla sem ber heitið: Fræðilegt yfirlit, m.a. skilgreiningu á einelti, helstu hugtaksatriði þess og birtingamyndir, auk samantektar yfir ýmsar aðferðir sem beitt hefur verið  til að sporna við einelti. 

Loks er það kaflinn sem hefur að geyma heildarniðurstöður rannsóknarinnar og er til umfjöllunar hér í dag á þessu málþingi. 

Í þessum kafla er fyrst fjallað um þá þætti sem rannsóknin leiddi í  ljós að eru jákvæðir á sviði eineltismála á Íslandi. Síðan er farið yfir það sem telja verður að sé ábótavant þegar kemur að baráttunni gegn einelti meðal barna og settar fram tillögur  að úrbótum. Markmið þessarar framsetningar er að auka möguleika á hagnýtingu rannsóknarinnar og þar með stuðla að enn frekari og markvissari aðgerðum gegn einelti meðal barna.

 

 

 

 

 

Sameiginleg forsjá - heimild dómara

14. október 2011

Það var árið 2007, sem frændur okkar Danir, tóku upp í lög um forsjá foreldra (forældreansvarsloven) - heimild til að dæma sameiginlega forsjá foreldra með börnum sínum þrátt fyrir að annað foreldrið væri því andvígt, en í dönskum rétti er sameiginleg forsjá meginreglan við skilnað eða sambúðarslit. Önnur Norðurlönd hafa og farið þá leið að taka upp heimild sem þessa í sína löggjöf, en reynsla þeirra mun vera misjöfn.

Ákvæði um heimild dómara til að ákveða sameiginlega forsjá þrátt fyrir að annað foreldrið sé því andvígt er ekki að finna í íslenskum barnalögum. Nefnd sem skipuð var í lok árs 2008 af þáverandi dóms – og kirkjumálaráðherra til að vinna drög að frumvarpi til breytinga á   þeim lögum lagði hins vegar til að slíkt ákvæði yrði lögfest. Á liðnu vori mælti innanríkisráðherra á  Alþingi fyrir frumvarpi til breytinga á barnalögum, en þá hafði umrætt ákvæði, sem gerð hafði verið tillaga, verið fellt burt. Í máli ráðherra kom m.a. fram að skiptar skoðanir væru um hvort dómari ætti að hafa heimild til að dæma sameiginlega forsjá gegn vilja annars foreldris. Jafnframt nefndi hann að brátt væri að vænta niðurstöðu Dana af reynslu þeirra af framangreindri heimild og sagði að sú  reynsla yrði væntanlega innlegg í umræðu hér á landi um þetta álitaefni.

Nú háttar þannig til að hinni dönsku rannsókn er nýlokið og niðurstöður liggja fyrir. Við hjá RÁS og RBF voru svo heppin að Mai Heide Ottosen önnur tveggja sem stýrðu rannsókninni - þekktist boð þessara tveggja stofnana að koma til landsins og kynna fyrir okkur Íslendingum niðurstöður þessarar splunkunýju dönsku rannsóknar. Það hefur í gegnum tíðina reynst okkur Íslendingum vel að líta til stórfrænda okkar á Norðurlöndum þegar unnið er að lagasmíð hér á landi og kynna okkur reynslu þeirra - ekki hvað síst í fjölskyldurétti -  enda samfélagsgerðin ákaflega lík. 

Þegar leitast hefur verið við að svara spurningunni um hver hafi verið reynsla Dana  í þessum efnum er eðlilegt að spyrja í framhaldinu hver verða næstu skrefin hér á landi, en frumvarpið til breytinga á barnalögum sem ráðherra lagði fram á vorþingi varð ekki útrætt. Er þess að vænta að frumvarpið verði lagt fram að nýju og þá óbreytt eða verða gerðar á þeim einhverjar breytingar  eftir að niðurstöður hinnar dönsku rannsóknar liggja fyrir ? Þessu verður ef til vill svarað hér í dag.

Deilur um forsjá eru alltaf viðkvæmar og erfiðar – ekki síst börnum- og það sem skiptir mestu máli – alltaf – er að  þarfir og hagsmunir barnanna séu hafðir að leiðarljósi við ákvarðanatöku í ágreiningsmálum sem þessum. Samkvæmt meginstefi Barnasáttmálans skal það sem barninu er fyrir bestu ávallt sett í öndvegi í málum sem þau varða. Höfum það hugfast.

 

Fyrirlestur Hrefnu Friðriksdóttur

Viðtal við Mai Heide Ottosen, Fréttablaðið 24. október 2011

Niðurstöður matsrannsóknar á ákvæðum danskra barnalaga um heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá

Grein eftir Unni B. Vilhjálmsdóttur, Fréttatíminn 2.-4. desember 2011

Upptaka af málþinginu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is