Skipt búseta barna sem búa á tveimur heimilum
11. nóvember 2015
Málstofa miðvikudaginn 11. nóvember, kl. 12:00-13:15 í Lögbergi, stofu 101
Nýlega kom út skýrsla starfshóps sem innanríkisráðherra skipaði í samræmi við þingsályktunartillögu Alþingis. Starfshópnum var falið að kanna með hvaða leiðum megi jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna með tilliti til réttinda, skyldna og skráningar sem fylgir lögheimili barns.
Á málstofu RÁS mun Rakel Þráinsdóttir, lögfræðingur hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og starfsmaður starfshópsins, fjalla um niðurstöður skýrslunnar. Að loknu framsöguerindi verða pallborðsumræður með Bóasi Valdórssyni, Guðríði Bolladóttur og Pálma Þór Mássyni sem voru í starfshópnum auk Lilju Borg Viðarsdóttur sem var starfsmaður. Allir velkomnir.
Málstofustjóri: Hrefna Friðriksdóttir, prófessor við Lagadeild HÍ og stjórnarformaður RÁS.
Fjölskyldan - hin þverfræðilega sýn
13. mars 2013
Hinn 13. mars sl. boðaði RÁS til opinnar málstofu í Lögbergi, sem bar yfirskriftina: Fjölskyldan – hin þverfræðilega sýn. Þar fluttu stutt erindi: Þórhildur Líndal forstöðumaður Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, Sigrún Júlíusdóttir prófessor í félagsráðgjöf, Erla Kolbrún Svavarsdóttir prófessor í hjúkrunarfræðum og Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ.
Að lokum erindum og fyrirspurnum var vefsíða Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni formlega opnuð og efni hennar kynnt fyrir gestum. Vefslóðin er ras.hi.is Einnig er RÁS að finna á Fésbókinni.
Erindi Þórhildar Líndal: Fjölskyldan- hin lögfræðilega sýn
Erindi Sigrúnar Júlíusdóttur: Sjónarhorn félagsráðgjafar
Erindi Erlu Kolbrúnar Svavarsdóttur: Fjölskyldur sem eru að fást við bráða og/eða langvinna sjúkdóma
Erindi Salvarar Nordal: Réttindi og skyldur
"Skóli fyrir alla" - fá allir að njóta sín?
6. apríl 2011
Nokkur umræða hefur átt sér stað að undanförnum um kosti og galla þeirrar stefnu sem nefnd hefur verið skóli án aðgreiningar – skóli fyrir alla.
Í grein sem Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri í Reykjavík skrifaði í Fréttablaðið í síðustu viku kemur m.a. fram að þessi skóla- og menntastefnan eigi sér um tveggja áratuga sögu og hún eigi rætur í baráttu foreldra fatlaðra barna fyrir rétti barna sinna til að ganga í almennan skóla.
Í grein sem Elin Ýr Arnardóttir nemi í þroskaþjálfunarfræðum skrifaði í Morgunblaðið fyrir nokkrum dögum lýsir hún skólagöngu sinni, sem fatlað barn, bæði í almennum skóla og sérskóla. Það er hennar mat að skóli án aðgreiningar sé afskaplega falleg hugmynd - útópísk en falleg þar sem öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir, en litið sé fram hjá þeirri staðreynd að öll dýrin í skóginum vilji ekki vera vinir. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að nemendum beri að eiga val um hvora leiðina þeir velja með tilliti til þess hvar þeir þrífist best.
Meginatriðið í stefnunni um skóla án aðgreiningar er að skóli sé með þjónustu fyrir alla nemendur sína, bæði fatlaða og ófatlaða. Gert er ráð fyrir því að hver skóli sé fær um að sinna öllum nemendum, svo sem kostur er, og taka á sérkennsluþörfum og erfiðleikum sem upp kunna að koma í skólanum með viðeigandi stuðningi.
Á þessari málstofu ætlum við að fjalla um þessa opinberu stefnu í skólamálum á Íslandi út frá ýmsum hliðum. Það er þó rétt að taka fram að það eru ýmsar fleiri hliðar á þessu máli en hér eru í forgrunni enda er þessari málstofu hvorki ætlað að vera upphaf né endir þessarar umræðu um skóla án aðgreiningar – skóla fyrir alla.
Tilkynningarskylda - trúnaðarskylda
1. september 2010
Tilkynningarskylda- trúnaðarskylda. Það er óþarfi að fara mörgum orðum um tilefni þessarar málstofu en umræðan í þjóðfélaginu að undanförnu um alvarlega misbresti innan kirkjunnar hefur vart farið fram hjá neinu ykkar, sem hér eruð stödd.
Ætlunin er að beina sjónum fyrst og fremst að löggjöfinni, hvað segja lögin annars vegar um tilkynningarskyldu barnaverndarlaga og hins vegar um trúnaðarskyldu presta. Fara þessi lagaákvæði saman eða er e.t.v. um ósamþýðanleg ákvæði að ræða? Við fáum einnig innsýn inn í viðhorf presta til þessara lagaákvæða.
Inngangserindi flytja þau Hrefna Friðriksdóttir lektor, Heimir Örn Herbertsson hrl. og Gunnar R. Matthíasson, prestur og formaður fagráðs Þjóðkirkjunnar um meðferð kynferðisbrota .
Erindi Sr. Gunnars Rúnars Matthíassonar frá málstofunni Tilkynningarskylda - trúnaðarskylda: Þagnarskylda presta